Páskar og lögmál Murphys

Ál er ansi merkilegur málmur. Það er rifist um hann í Hafnarfirði, nýbyrjað að framleiða hann á Reyðarfirði og það er rifist um hann á Alþingi.

Hvernig snertir ál lífið mitt? Tja, gleraugun mín eru úr áli, sem mér var sagt að hefði verið framleitt í Straumsvík og núna á skírdag setti álbútur ferðalagið mitt til Eyja í hættu.

Þetta var nákvæmlega eins og lögmal Murphy’s. Við Vilborg vorum búin að pakka öllu dótinu í bílinn og vorum komin á beinu Miklubrautina á leið út úr bænum. Mátulega tímanlega til að ná Herjólfi í Þorlákshöfn. Við vorum komin framhjá Kringlunni þegar ég sé eitthvað glansandi stykki koma fljúgandi undan bílnum á undan. Næsta sem ég heyri er heljarinnar dynkur og óhljóð, þegar búturinn flaug undir bílinn.

Ég blikkaði bílinn á undan eins og brjálæðingur og ökumaður hans var nógu elskulegur til að stoppa. Hann var á nýuppgerðum Benz sportbíl á breiðum afturdekkjum. Við skoðuðum bílinn hans og þar var ekkert sem vantaði. Þannig að við skiptumst á símanúmerum og ég skoðaði bílinn minn betur. Þá kom í ljós að vatnskassinn lak. Ég settist inn og keyrði bílinn minn pípandi með rautt ljós í mælaborðinu heim til mömmu og pabba.

Ég hringdi í tryggingafélagið og lét lögguna gera skýrslu. Ég fékk líka bílinn lánaðan hjá Arnari frænda til að finna stykkið mikla. Það reyndist vera 40 cm langur álbútur og um það bil 10 cm á breidd. Semsagt, rusl af götunni og fellur því í sama flokk og þegar grjótkast skemmir bíl.
Það er ólíklegt annað en að ég þurfi að bera tjónið sjálfur, það felst í að kaupa nýjan vatnskassa og grill og að láta koma því í bílinn. Dýrt. Ef þetta verður mjög dýrt, get ég alltaf látið tryggingarnar græja þetta.

Sem betur fer, fer Herjólfur tvær ferðir milli lands og eyja og við misstum af fyrri ferðinni. Þannig að mamma og pabbi skutluðu okkur í Þorlákshöfn til að ná seinni ferðinni eftir að mamma úðaði í okkur pönnukökum með rjóma. Þetta var eiginlega lán í óláni, því það er miklu sniðugra að skilja bílinn eftir heima hjá þeim heldur en í Þorlákshöfn, svo ekki sé minnst á pönnsurnar!

Álbúturinn var vonandi eina vandamálið í þessari ferð. Herjólfur skilaði okkur klakklaust til Eyja og við höfum verið hérna í leti forfeðranna í góðu yfirlæti hjá Friðrik og Guðrúnu, foreldrum Vilborgar.
Veðrið hefur ekki beint leikið við okkur, hér er búin að vera rigning (rigning í Eyjum er blautari en annarsstaðar) og rok. Það þýðir að það er ekkert gaman fyrir gleraugnagláma eins og mig að vera úti. Vilborg er reyndar búin að fara út að labba alla dagana, koma hundblaut heim og fara beint í sturtu.

Semsagt, ljúfir páskar með fokdýru upphafi.


Hvaða síma á ég að fá mér?

Ég er búinn að eiga sama farsímann í tvö ár. Þetta hefur aldrei gerst fyrr eða síðar. K750 er frábær sími og það er ekki margt sem nýju símarnir gera fyrir mig. EDGE er jú næs, mun meiri hraði til að vafra um netið og senda MMS og 3 eða 5 Megapixla kamerur eru líka næs, en þegar maður fer að borga sinn eigin símareikning, er GPRS og EDGE verðskrá Símans RÁN í dagsljósi og hefur þar að auki ekki verið endurskoðuð síðan í júní 2005, þannig að ég reyni að nota GPRS eins lítið og ég get. Það breytist líka afstaðan þegar maður þarf skyndilega að borga fyrir símana sína sjálfur.
Þannig að K750 hefur dugað mér vel. En núna langar mig í nýjan síma.
Ég er búinn að ákveða hvaða atriði skipta mestu máli:

3G
Flottur
Flott viðmót
Verður að geta tengst Makka fyrir sync og módem samskipti
Verður að hafa möguleika á að slá inn séríslenska stafi

Hér áður fyrr hefði valið verið sára einfalt: Sony Ericsson. Gallinn er, að mér fynnst þeir símar ekki eins sexy og þeir hafa alltaf verið. Ég sakna daganna þegar símarnir urðu klassískir um leið og þeir komu á markað, eins og Sony Ericsson T610 síminn.
Núna eru Nokia að klifra upp stigann með mjög flottum símum og þeir virðast hafa komist fyrir mest af þeim vandræðum sem hrjáðu eldri símana, ég hef ekki náð að leika mér mikið með þá nýjustu, en þetta litla sem ég hef leikið mér með þá, þá líta þeir vel út. Útlitið á símunum þeirra í ár hefur líka batnað mikið.
Motorola búa til fallegt hardware, en þeir ættu að gera miklar breytingar á hugbúnaðardeildinni.
Sama á við um Samsung. Mjög fallegir símar, en það vantar alltaf eitthvað upp á í hugbúnaði og stuðningi við allskyns ku´l þjónustur sem gera mér kleift að gera símanördalega hluti.
iPhone kemur ekki fyrr en í lok árs og eins og staðan er, er ekkert vitað hvort hann verði 3G í Evrópu eða ekki. Mér fyndist reyndar heimskulegt ef svo yrði ekki.

Þannig að valið stendur um Sony Ericsson eða Nokia síma. Spurningin er bara hvaða sími stendur upp úr og hef ég eitthvað að gera við hann?

Settu inn komment ef þú hefur einhverjar tillögur.


Aukablogg

Ég ætla að prófa aðeins hvernig það er að vera með blogg hér, sem ég get uppfært hvar sem er. Annars er aðalbloggið mitt hér: á heimasíðunni minni

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband